Ferðafélagarnir fyrir utan Bayeux safnið ásamt safnstjóranum.
Áhugafólk um Njálurefilinn fór til Frakklands dagana 25. - 29. apríl 2019 til að skoða Bayeux-refilinn á Bayeux Museum. Refilinn er 70 metra langur og er á heimsminjaskrá Unesco. Hann segir frá orrustunni við Hastings, þegar Vilhjálmur sigursæli lagði England undir sig árið 1066. Það fór straumur um marga í hópnum þegar komið var inn í portið á safninu. Hópurinn var leiddur í gegnum söguna með hljóð-leiðsögn og þótti sumum nóg um hraðann sem var á því ferðalagi enda margur sem vildi virða betur fyrir sér ýmis smáatriði í reflinum. En þetta er gert til að tryggja flæði í gegnum sýninguna sem 400.000 manns skoða á ári hverju og allt að 3000 manns á dag. Þegar hópurinn hafði farið í gegnum sýninguna tók safnstjórinn Antoine Verney á móti honum og fræddi hann um sögu og varðveislu refilsins.
Það er mikið vandaverk að varðveita svo gamalt listaverk og að mörgu að huga í því sambandi. Nú stendur til á næstu árum að byggja nýtt hús yfir listaverkið sem er í eigu Franska ríkisins og sagði Verney hópnum að ágreiningur væri um hvernig refillinn yrði sýndur í hinu nýja húsnæði. Hvort leggja ætti áherslu á að sýna listaverkið eins og hugsað var í upphafi eða að meiri áhersla verði lögð á varðveisluna.
Ekki er laust við að smá kvíðahroll hafi sett að sumum í hópnum, þegar hugur var leiddur að varðveislu hinn 90 metra langa Njálu-refils. Í öllu falli duldist engum að við höfðum fengið mikilvægar og gagnlegar upplýsingar. Að lokum færðu hópurinn Hr. Verney nokkrar gjafir, m.a. hóp-saumaða mynd úr Njálu-reflinum. Heimsóknin á safnið var áhrifarík og ljóst að að mörgu þarf að huga þegar kemur að uppsetningu og varðveislu Njálu-refilsins.
Í ferðinni var einnig farið á slóðir innrásarinnar í Normandí og einnig sáum við dómkirkjuna í Bayeux og margt fleira. Í ferðinni naut hópurinn styrkrar leiðsagnar Parísardömunnar Kristínar Jónsdóttur sem fer um París og Frakkland með íslenska ferðamenn, sjá: http://www.parisardaman.com/
Ferðin tókst einstaklega vel, var bæði fræðandi og gagnleg á allan máta. Víst er að Njálu-refillinn á eftir að njóta góðs af þeirri fræðslu sem aðstandendur hans fengu í ferðinni.
Gunnhildur og Cristína afhenda safnstjóranum Antoine Verney handsaumaða mynd úr Njálureflinum.
Njálurefill, Sögusetrinu Hvolsvelli
Hlíðarvegi 14
860 Hvolsvöllur
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Fjallasaum ehf
Hlíðarvegur 15
860 Hvolsvöllur